Uppskriftir

Hátíðarkalkúnn með heimatilbúinni fyllingu

Aðalréttur

Innihald

 • 1 heill kalkúnn
 • 1 askja kryddsmjör
 • 500 g smjör
 • Kalkúnakrydd
  Kalkúnafylling
 • 3 perur, skornar í litla bita
 • ½ poki þurrkuð epli, skorin í bita
 • 1 Dímon ostur, skorinn í litla bita
 • 1 poki brauðteningar
 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 1 engiferbútur, saxaður smátt
 • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • Kryddjurtir, t.d. kóríander, salvía og timjan, saxaðar gróft
  Öllu blandað saman. Gott er að gera fyllinguna kvöldið áður.
  Kalkúnasósa
 • ½ rauðlaukur
 • 2 msk. ólífuolía
 • 50 g smjör
 • 150 g sveppir
 • 2 dl vatn
 • 1 dl óáfengt hvítvín
 • Soð af kalkúninum
 • 1–2 msk. fljótandi kjúklingakraftur
 • 500 ml rjómi
 • 1 msk. rifsberjahlaup
 • Salt og pipar

Aðferð

 • 1.

  Takið kalkúninn út í tæka tíð og látíð hann þiðna inni í ísskáp. Skolið hann vel og þerrið bæði að utan og innan.

 • 2.

  Smyrjið kalkúninn vel með bræddu smjöri. Gerið raufar í bringurnar með hníf og fyllið með kryddsmjöri. Gerið göt í bringurnar með beittum hníf, u.þ.b. 5 í hvora bringu. Kryddið vel með kalkúnakryddi og nuddið vel inn í allan kalkúninn. Setjið fyllinguna inn í fuglinn eða eldið í sér fati í ofni.

 • 3.

  Leggið kalkúninn á ofngrind og setjið ofnskúffu undir Byrjað á því að hita hann við 200°C í 15 mínútur. Dýfið viskustykki í brætt smjör og breiðið yfir kalkúninn. Lækkið hitann í 120°C. Meðan á eldunartíma stendur er bræddu smjöri ausið reglulega yfir kalkúninn (þ.e. viskustykkið).

 • 4.

  Þegar líður á eldunartímann er soðinu ausið yfir kalkúninn. Þegar 15 mínútur eru eftir af tímanum er viskustykkið tekið af og hitinn hækkaður aftur í 200°C. Notið hitamæli og takið kalkúninn út þegar hitinn er kominn í u.þ.b. 70-72°C. Setjið álpappír utan um kalkúninn og hvílið í hálftíma. (Gott er að stinga mælinum djúpt milli bringu og læris þar sem fuglinn eldast seinast. Eldunartíminn fer eftir stærð fuglsins, hvort hann er með fyllingu eða ekki og hver ofnhitinn er. Oft er gott að miða við 40 mínútur fyrir hvert kíló.)

 • 5.

  Skerið rauðlaukinn fínt niður. Steikið upp úr olíu og smjöri þar til hann verður mjúkur. Skerið sveppina frekar gróft niður og bætið þeim út á pönnuna og steikið þar til þeir verða mjúkir. Bætið vatni og hvítvíni út á sveppina og sjóðið í 1-2 mínútur. Bætið 1 msk. af kjúklingakraftinum út í og soðinu af kalkúninum. Bætið rjómanum út í og náið upp suðu. Bragðbætið með rifsberjahlaupi, kjúklingakrafti, salti og pipar eftir smekk. Sjóðið saman í nokkrar mínútur þar til sósan þykknar.

 • 6.

  Berið fram með Waldorf salati og brúnuðum kartöflum.

Aðrar uppskriftir